Hagnaður tæknirisanna tveggja, IBM og Intel, dróst töluvert saman á öðrum ársfjórðungi borið saman við sama tímabil í fyrra. Hagnaður Intel á öðrum fjórðungi þessa árs nam tveimur milljörðum dala og dróst saman um 29% á milli ára. Hagnaður IBM á tímabilinu nam 3,2 milljörðum dala og dróst saman um 17%.

Velta IBM var 3% minni en á öðrum fjórðungi 2012 og velta Intel dróst saman um 5%.

Intel framleiðir örgjörva og tölvukubba, einkum í hefðbundnar tölvur, og auknar vinsældir spjaldtölva og snjallsíma hafa komið illa við reksturinn. Vélbúnaðarsala IBM dróst saman á milli ára, en velta af sölu hugbúnaðar jókst. Í frétt BBC er bent á að sala á heimilistölvum hafi dregist saman um ein 10,9% á öðrum ársfjórðungi.