Eigendur Tölvuteks munu í dag óska eftir því við héraðsdóm að fyrirtækið verði tekið til gjaldþrotaskipta í framhaldi af því að ekki náðist samkomulag við viðskiptabanka félagsins um áframhaldandi lánsheimildir.

Tölvutek var stofnað í desember 2006 en hjá því störfuðu um fimmtíu starfsmenn. Árið 2013 var afráðið að flytja verslun félagins í Reykjavík í stærra húsnæði og sækja á fyrirtækjamarkað.

„Flutningarnir og breytingar á rekstri reyndust mun dýrari en áætlað hafði verið. Reyndist hið nýja húsnæði mikill dragbítur á reksturinn, sem hefur fyrir vikið verið í járnum síðustu ár. Eftir taprekstur í fyrra var hlutafé aukið ásamt því að eigendur lögðu til rekstrarfé um síðustu áramót. Mikil vinna var lögð í að bjarga félaginu en eftir að lánsheimildir voru felldar niður varð útséð um frekari tilraunir til þess,“ segir í tilkynningu frá félaginu um málið.

Eigendur verslunarinnar segja að nær öllum búnaði sem var í viðgerð hjá Tölvuteki hefur verið komið í hendur eigenda þess. Reynt hafi verið eftir fremsta megni að lágmarka tjón viðskiptavina af lokun fyrirtækisins, en ljóst að þeir sem eftir sitja verði að gera kröfu í bú þess hjá skiptastjóra.

„Næstu daga verður hægt að senda fyrirspurnir á spjallrás Tölvuteks á Facebook en þar verður reynt eins og hægt er að veita upplýsingar og leiðbeiningar,“ segir í tilkynningunni.