Fréttir af tölvuþrjótum hafa verið áberandi á síðustu mánuðum og árum. Svo virðist sem ekkert lát sé á starfseminni en undanfarið hafa þó fréttir borist vestanhafs af upprætingu slíkra hópa. Í vikunni var til dæmis tilkynnt um handtöku þriggja háttsettra félaga í tölvuþrjótahópnum Lulzsec en þeir eru hluti af hinu þekkta teymi Anonymous.

Þá kom nýverið fram á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að tölvuþrjótar hafi á síðasta ári náð fullri stjórn yfir mikilvægum tölvum hjá Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA. Sökudólgarnir hafa enn ekki fundist en málið er nú til rannsóknar. Í vikunni bárust einnig fréttir frá hljómplötuútgefandanum Sony sem viðurkenndi að tölvuþrjótar hefðu á síðasta ári stolið óútgefnu efni Michael Jackson heitins en fyrirtækið greiddi 250 milljónir dollara í dánarbú söngvarans fyrir réttinn á lögunum.