Stórfenglegar netárásir í lok síðustu viku skutu mörgum réttilega skelk í bringu. Nútímaþjóðfélög eru gríðarlega háð upplýsingatækni og það á jafnt við viðkvæma innviði sem mikilvægar flatbökusendingar. Afleiðingarnar virðast ekki jafnalvarlegar og upphaflega var óttast, en árásirnar ættu að vekja menn til vitundar um aðsteðjandi ógn og rétt viðbrögð við henni.

Segja má að undanfarinn aldarfjórðungur hafi verið samfelld sigurganga tækni-, tölvu- og upplýsingageirans. Eftir að einkatölvur ruddu sér til rúms á níunda áratugnum varð netið að almannaeign, svo tala má um upplýsingabyltingu, en fyrir tíu árum kom iPhone svo fram og breytti huglægu umhverfi manna, netvæð- ingu, viðskiptum og ótal hlutum öðrum með varanlegum hætti.

Enn sér ekki fyrir endann á þeirri byltingu en skammt undan eru enn frekari framfarir á sviði sjálfvirkni, gervigreindar, blandaðrar skynjunar raunheims og upplýsinga. Þessar stórfenglegu gjafir Njarðar hafa þó ekki verið gallalausar.

Freistingum og tækifærum tölvuþrjóta hefur fjölgað, svikahrappar blekkja fólk til þess að gefa upp greiðsluupplýsingar, hakkarar leka viðkvæmum upplýsingum um fólk, fyrirtæki og ríkisleyndarmál, sum ríki eru grunuð um að dreifa fölskum fréttum og hlutast til um gangverk lýðræðisins í öðrum löndum og þar fram eftir götum.

Af fréttum undanfarinna mánaða og missera ætti því að vera ljóst að allir — einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir og hið opinbera — þurfa að taka tölvuöryggi grafalvarlega.

Gamaldags tölvuárás

Þess vegna voru fregnirnar af WannaCry árásunum á sinn hátt eilítið gamaldags, því slíkar árásir voru mönnum meira áhyggjuefni í árdaga netsins.

Síðastliðinn föstudag var sendur af stað tölvuormur, sem notfærði sér þekkta gloppu í eldri útgáfum af stýrikerfinu Windows (sem Microsoft hafði raunar þegar gefið út bót á). Hann tók sér bólfestu í stýrikerfinu, dulkóðaði gögn og krafðist lausnargjalds í hinum órekjanlega rafeyri Bitcoin.

Talið er að um kvartmilljón tölva í um 150 löndum, þar á meðal Íslandi, hafi orðið fyrir barðinu á WannaCry-orminum. Rússland, Úkraína, Indland og Taívan eru talin hafa farið verst út úr árásunum, en meðal fyrirtækja og stofnana sem urðu illa fyrir barðinu á þeim voru breska heilbrigðiskerfið NHS, spænska símfélagið Telefónica, flutningafyrirtækið FedEx og þýsku ríkisjárnbrautirnar.

Flest fórnarlömbin eiga það sameiginlegt að hafa notast við gamlar tölvur og hugbúnað, hafa trassað að uppfæra stýrikerfi eða notast við hugbúnað í leyfisleysi og því ekki fengið viðvaranir um nauðsyn þess að bæta fyrrnefnda gloppu.

Ótrúlega ör og víðtæk útbreiðsla WannaCry-tölvuormurinn er sérstakur fyrir það hversu ört hann breiddist út og hversu víða. Í honum hafa menn fundið kóðabrot héðan og þaðan, meðal annars frá Norður-Kóreu, sem menn trúa til alls ills í þessum efnum sem öðrum.

Það, sem þó er ekki síður alvarlegt, er að þessar árásir sigla í kjölfar þess að ýmiskonar árásarhugbúnaði úr vopnabúri bandarísku þjóðaröryggisstofnunarinnar NSA var lekið út á netið fyrr á árinu. NSA (National Security Agency) er ein af leyniþjónustum Bandaríkjanna og sérhæfir sig í fjarskiptum, dulmáli og þess háttar.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .