Heimsins stærsta hamborgarakeðja, McDonald's, varð fyrir netárás í Taiwan og Suður-Kóreu. Komust tölvuþrjótarnir m.a. yfir persónuupplýsingar sumra viðskiptavina og starfsmanna hamborgararisans í umræddum löndum. McDonald's er því nýjasta stórfyrirtæki á heimsvísu sem lendir í netárás en áður hafa félög á borð við JBS og Colonial Pipeline verið fórnarlömb slíkra glæpa. Reuters greinir frá.

Eftir að upp komst um að að óprúttinn aðili hafi komist inn á netþjón McDonald's á ofangreindum svæðum var ráðist í rannsókn á málinu. Leiddi rannsóknin í ljós að þrjótarnir komust yfir lítinn hluta skjala sem geymd eru inni á netþjóninum, en sum skjalanna sem þeir komust yfir innihéldu persónuupplýsingar.

Hefur yfirvöldum í Taiwan og Suður-Kóreu verið gert viðvart um árásina, auk þess sem haft verður samband við þá viðskiptavini sem komu við sögu í skjölunum sem þrjótarnir komust yfir. Þrjótarnir komust þó ekki yfir neinar greiðslukortaupplýsingar.