Tölvuþrjótur komst inn í tölvupóstsamskipti starfsmanns íslensks fyrirtækis og erlends birgis og það varð til þess að sex milljónir króna voru millifærðar inn á reikning í erlendum banka sem fjársvikarinn gaf upplýsingar um. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu .

Þar er greint frá því að eftir að tölvuþrjóturinn komst inn í tölvupóstsamskiptin hafi hann útbúið tölvupóstfang sem líktist póstfangi erlenda birgisins og lét líta út sem framhald væri á fyrri samskiptum. Greiðslan fór hins vegar ekki í gegn í fyrstu þar sem upplýsingar um eiganda bankareikningsins og skráðan móttakanda pössuðu ekki saman. Var þrjóturinn þá einnig kominn í tölvupóstsamskipti við starfsmann íslenska viðskiptabankans.

Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, segir í samtali við Morgunblaðið að aukning hafi orðið á því að gerðar séu tilraunir til fjársvika í gegnum tölvupóst þar sem send eru greiðslufyrirmæli á óviðkomandi bankareikninga. Bankinn ráðleggur viðskiptavinum að sinna öryggismálum sínum vel.