Hugbúnaðarfyrirtækið Gangverk vinnur nú að því að endurskipuleggja upplýsingatæknikerfi uppboðsfyrirtækisins Sotheby’s.

Sotheby’s er eitt elsta uppboðshús heims, en það var stofnað í London árið 1744. Í dag er Sotheby’s með deildir í London, Hong Kong, Moskvu og New York, þar sem fyrirtækið er jafnframt með höfuðstöðvar sínar ásamt því að vera skráð í kauphöll.

„Í grófum dráttum erum við að tölvuvæða uppboðsferlið hjá Sotheby’s frá A til Ö,“ segir Atli Þorbjörnsson, tæknistjóri Gangverks. Uppboð hjá Sotheby’s höfðu verið með hefðbundnu sniði; vara var auglýst, uppboðshaldari tilkynnti um verð, tók tilboðum á staðnum og lét hamarinn falla þegar vara var seld til hæstbjóðanda. Sotheby’s hafði einnig byrjað að dífa tánni ofan í netuppboð, en hafði notað til þess staðlaðan hugbúnað „af hillunni“.

Með slíku fyrirkomulagi var Sotheby’s hins vegar ekki að hámarka virði þeirra vara sem það tók í sölu. „Það sem skiptir uppboðshús máli er einföldun og fjöldi tilboða. Eftir því sem ferlið er einfaldara og meira á netinu geta fleiri tekið þátt. Eftir því sem tilboðin eru fleiri, þeim mun hærra verð fæst fyrir vöruna,“ segir Atli.

Verkefni Gangverks í samstarfinu við Sotheby’s er í dag tvíþætt. „Fyrsta verkefnið okkar er að sér-sníða hugbúnað, eða svokallað „auction engine“, fyrir tímasett uppboð. Þar eru tilboð móttekin rafleiðis og uppboðið á sér stað innan ákveðins tímaramma. Síðan erum við að vinna í því að færa uppboð í rauntíma yfir á þetta kerfi. Þannig færum við  mismunandi tegundir uppboða ofan á sameiginlegan kjarna,“ segir Atli, sem segir samstarfið við Sotheby’s hugsað til langs tíma.

Á réttum stað á réttum tíma

En hvað fékk elsta uppboðshús heims til að leita alla leið til Íslands fyrir tækniuppfærslu? „Við þróuðum farsímalausnir fyrir CBS Media á sínum tíma og vorum að skila góðu verki. Fólk sem hafði starfað þar færði sig yfir til Sotheby’s og sá að það var gapandi þörf fyrir farsímahugbúnað hjá fyrirtækinu. Það leitaði til okkar og þannig byrjuðu tengslin við Sotheby’s,“ segir Atli. Heppnin var einnig með Gangverki í liði. „Á þessum tíma var skipt um stjórnendur hjá Sotheby’s. Nýir stjórnendur áttuðu sig á því hvað fyrirtækið væri aftarlega á merinni í tæknihliðinni. Stjórnendurnir sá sér leik á borði með því að leita alla leið til Íslands, þar sem þeir þurfa ekki að keppa við stórfyrirtæki á borð við Facebook, Google og Amazon um gott tæknifólk.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð . Aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Afkoma verslana alþjóðlegs fatarisa hér á landi
  • Yfirvofandi dómsmál vegna aflandskróna
  • Staða fasteignamarkaðarins hér á landi og aðgengi ungs fólks að honum
  • Rannveig Sigurðardóttir, nýr aðstoðarseðlabankastjóri er í ítarlegu viðtali
  • Grein um afleiðumarkað hér á landi
  • Umfjöllun um laxveiði
  • Íslenskt nýsköpunarfyrirtæki sem býr til hugbúnað sem leysir vissan vanda sem stofnanir og fyrirtæki glíma við
  • Viðtal við nýjan stjórnendaráðgjafa hjá Advania
  • Óðinn skrifar um kjarabaráttu ljósmæðra
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar um Samkeppniseftirlitið