Umhverfismálin koma iðulega upp þegar rætt er um uppbyggingu álvera hér á landi sem annars staðar. Sú umræða snýr bæði að álverunum sjálfum auk þess sem mikið er deilt um virkjanir og orkunýtingu.

„Ég vil meina að umræðan hér á landi hafi verið á villigötum,“ segir Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa aðspurður um umræðuna um umhverfissjónarmiðin.

„Við erum hér með mjög tæknilega fullkomin álver og um þau gilda mjög strangar umhverfisreglur. Það er mikill metnaður meðal álframleiðenda til að ná árangri í umhverfismálum og álverin hér á landi með þeim fremstu í heiminum. Það sama gildir um orkumannvirkin. Ég vil meina að við höfum ekki fengið almennilega það kredit sem við eigum skilið en það kann vel að vera að það sé okkur sjálfum að kenna.“

Þá segir Tómas Már að álframleiðendur hér á landi hafi lengið verið með það í burðarliðnum að stofna sérstök Samtök álframleiðenda undir hatti Samtaka iðnaðarins. Sú vinna sé nú á lokastigi og reiknar hann með að slík samtök geti haft sameiginlega hagsmuni að því að kynna málstað álframleiðenda.

_____________________________

Nánar er rætt við Tómas Má í viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .