„Það er auðvitað ekki gaman að mæta í boð sem maður er ekki boðinn í, það er ekki okkar stíll,“ segir Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa á Íslandi aðspurður um hvernig sé að starfa í umhverfi þar sem ríkisstjórnin setur fyrirtækjum, t.d. álfyrirtækjum fótinn fyrir dyrnar.

Spurningin kemur í framhaldi af umræðu um ákvörðun yfirvalda að framlengja ekki viljayfirlýsingu vegna uppbyggingu álversins á Bakka en Tómas Már segir í viðtali við Viðskiptablaðið að það verkefni sé nú í biðstöðu vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar.

Enn liggur ekki fyrir hversu stórt álver verður reist á Bakka, verði það á annað borð reist, það fer eftir því hversu mikil orka er til staðar en enn á eftir að gera tilraunir og rannsóknir á jarðvarmasvæðum í nágrenni við Húsavík. Þá segir Tómas Már að einnig verði hægt að fá hluta orkunnar frá Kárahnjúkavirkjun en á vissum tíma árs er umframorka af virkjuninni sem hægt væri að nýta. Ef allar forsendur ganga eftir segir Tómas Már að hægt sé að gangsetja fyrsta áfangann í álverinu á árunum 2013 – 2014.

_____________________________

Nánar er rætt við Tómas Má í viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .