„Það eru [...] vonbrigði fyrir okkur öll að forsætisráðherra hafi ekki átt heimangengt í dag. En ég geri mér vonir um að þegar við hittumst hér að ári liðnu muni forsætisráðherra koma hingað og ávarpi Viðskiptaþing venju samkvæmt.“

Þetta sagði Tómas Már Sigurðsson, fráfarandi formaður Viðskiptaráðs á Viðskiptaþingi sem nú stendur yfir.

Eins og áður hefur komið fram þáði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, ekki boð Viðskiptaráðs um að ávara Viðskiptaþing.

Tómas Már sagði að fyrir því væri löng hefð að forsætisráðherra ávarpi Viðskiptaþing. Sú hefð hafi undirstrikað mikilvægi þess að gott samband sé á milli atvinnulífsins og stjórnvalda.

„Oft hefur gustað á milli, eins og á að gerast þegar öflugir stjórnmálamenn segja hug sinn um mikilvæg málefni þjóðarinnar,“ sagði Tómas Már.

„En ræða forsætisráðherra hér á Viðskiptaþingi er til marks um að þrátt fyrir að skoðanir geti verið skiptar á að fara fram rökræða og að hinir sameiginlegu hagsmunir eru yfirsterkari öllu því sem skilur á milli.Það er nefnilega ríkari ástæða nú en verið hefur um langan hríð að stjórnvöld og atvinnulífið ræðist við. Í viðhorfskönnun sem við létum gera á meðal forsvarsmanna íslenskra fyrirtækja kom í ljós að um helmingur telur að ríkisstjórnin sjálf sé helsta hindrunin í vegi vaxtar og viðgangs íslensks efnahagslífs. 30 prósent nefna síðan skatta. Þessi niðurstaða er sú sama og fyrir ári síðan, og hlýtur að vera sameiginlegt áhyggju- og úrlausnarefni, bæði fyrir forystumenn atvinnulífsins og ríkisstjórnar. Í þessu samstarfi stöndum við okkur ekki nægilega vel.“