Alcoa, móðurfélag Fjarðaráls og einn stærsti álframleiðandi í heimi, hefur tilkynnt að dregið verði úr álframleiðslu í verksmiðjum félagsins á Spáni og Ítalíu. Það svæði er einmitt undir stjórn hins nýskipaða forstjóra Alcoa í Evrópu, Tómasar Más Sigurðssonar, sem áður var forstjóri Fjarðaráls og Alcoa á Íslandi.

Ákvörðunin er tekin í kjölfar uppgjörs Alcoa á síðasta ársfjórðungi 2011. Félagið tapaði 193 milljónum dala á fjórða ársfjórðungi  samanborið við 172 milljóna dala hagnað á sama tíma í fyrra. Tapið er einkum rakið til mikillar lækkunar á álverði á heimsmarkaði og minni umsvifum.

Haft er eftir Klaus Kleinfeld, forstjóra móðurfélagsins á vef Financial Times, að uppgjörið sýni góða afkomu á víðsjárverðum tímum. Viðbrögðin verði þau að draga kostnaði við breyttar markaðsaðstæður.  Til að ná því markmiði verður dregið úr framleiðslu eða henni hætt í þremur álverksmiðjum á Spáni og Ítalíu.

Ábyrgð Tómasar Más

Sem forstjóri Alcoa í Evrópu ber Tómas Már ábyrgð á samræmingu aðgerða allra starfsstöðva Alcoa víðsvegar um Evrópu en þær eru tæplega 50 talsins. Tómas Már gegnir einnig hlutverki forstjóra álframleiðslusviðs (GPP) í Evrópu og ber þar með beina ábyrgð á álverum og súrálsverksmiðjum Alcoa á Íslandi, Ítalíu, Spáni og í Noregi.