Viðskiptaráð hefur fundið fyrir því að stjórnvöld hafa amast við gagnrýni vegna skattastefnu sinnar og brugðist við henni með útúrsnúningum. Skilaboðin hafa verið nokkuð á þá lund að vegna þess að hér varð hrun þá eigi Viðskiptaráð ekkert upp á dekk, ráðið eigi ekkert með það að gagnrýna núverandi stjórnvöld.

Þetta sagði Tómas Már Sigurðsson, fráfarandi formaður Viðskiptaráðs á Viðskiptaþingi sem nú stendur yfir.

Tómas Már sagði að Viðskiptaráð hefði á undanförnum árum lagt höfuðáherslu á tvennt. Að fara vel yfir sín störf í aðdraganda hrunsins og í framhaldi af því lagt fram málefnalegar tillögur um hvað betur má fara og til hvaða aðgerða þarf að grípa til að leysa þau efnahagsvandamál sem við okkur blasa.

Þá sagði Tómas Már að Viðskiptaráð hefði að sama skapi bent á það sem aflaga hefur farið á undanförnum árum við stjórn efnahagsmála.

„Við höfum til dæmis bent á það að skattkerfinu hefur á undanförnum þremur árum verið breytt að grunngerð og oftar en hundrað sinnum hafa skattar verið hækkaðir eða nýir teknir upp,“ sagði Tómas Már.

„Þetta á bæði við fyrir fólk og fyrirtæki og gildir einu hverjar tekjur fólksins eru, allir þurfa að greiða hærri skatta. Jafnframt höfum við bent á ýmsar brotalamir í starfsumhverfi fyrirtækja, galla sem auðvelt er að laga ef góður vilji og skilningur á þörfum atvinnulífsins er til staðar hjá stjórnvöldum.“

Þá sagði Tómas Már að  málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar við gagnrýni væri bæði fráleitur og hættulegur.

„Hann er fráleitur vegna þess að það er skylda okkar allra að leggja allt það til sem við best kunnum og trúum að geti verið til framfara fyrir þjóðina. Fordómalausar umræður og yfirvegaðar rökræður eiga síðan að skera úr um hver stefnan á að verða,“ sagði Tómas Már.

„En málatilbúnaðurinn er líka hættulegur því hann er krafa um þöggun, krafa um að þeir sem gerst þekkja til í atvinnulífi landsmanna segi ekki skoðun sína og veiti ekki gagnrýnið og málefnalegt aðhald á mikilvægum tímum í sögu þjóðarinnar.“

Þá minnti Tómas Már á að Viðskiptaráð hefði alltaf verið gagnrýnið á stjórnvöld, óháð hver þau eru hverju sinni, ef stjórn efnahagsmála væru á skjön við hagsmuni atvinnulífs og hagsmuni samfélagsins í heild.