Mikilvægt er að umræða um efnahagsmál og viðskipti sé stunduð af yfirvegun og skynsemi. Allt of oft er rökum svarað um skætingi og útúrsnúningum, allt of oft er málflutningur gerður tortryggilegur í pólitískum tilgangi og allt of oft virðist vera einhvers konar sambandsleysi á milli þeirra sem fara með stjórn landsmála og þeirra sem starfa í atvinnulífinu.

Þetta sagði Tómas Már Sigurðsson, fráfarandi formaður Viðskiptaráðs á Viðskiptaþingi sem nú stendur yfir.

Tómas Már sagði að bætt starfsumhverfi atvinnulífs hlyti að vera keppikefli allra, stjórnmálamanna, verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda. Hagsmunirnir væru sameiginlegir, að stækka kökuna sem mest þannig að meira sé til skiptanna.

„Það er sjálfsagt að menn takist á og láti finna fyrir sér og skoðunum sínum. En augljóslega þurfum við að gera betur og lyfta umræðu um efnahagsmál á Íslandi upp úr þeim skotgröfum sem þær hafa verið í á undanförnum misserum,“ sagði Tómas Már.

Þá sagði Tómas Már að tækifæri Íslendinga séu nánast óþrjótandi.

„Okkar eina raunverulega vandamál erum við sjálf. Hugsunarháttur, stemming, viðmið og tíðarandi geta haft gríðarlega mikið um það að segja hversu vel okkur gengur,“ sagði Tómas Már.

„Rétt eins og á árunum fyrir hrun sló út í öfgar bjartsýni og kapp, þá hefur á undanförnum árum þjóðfélagsumræðan verið of neikvæð og niðurrifskennd. Uppgjör við liðna tíð er mikilvægt og enn mikilvægari er sá lærdómur sem við drögum af uppgjörinu. En mikilvægast er hvernig okkur tekst að nýta lærdóminn og bæta samfélagið okkar, leikreglur þess og grunngerð. Við eigum fjöldamörg tækifæri til að bæta umhverfi atvinnulífsins og þar með bæta lífskjörin í landinu.“

Þá sagði Tómas Már að mikilvægt væri fyrir atvinnulífið, verkalýðsfélögin og stjórnvöld að vinna saman til þess að geta nýtt þau tækifæri sem liggja fyrir hendi.