Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði, hefur verið skipaður í nýja stöðu forstjóra Alcoa á Íslandi.

Undir hann mun heyra álverið í Reyðarfirði og áætlanir um byggingu álvers á Bakka við Húsavík. Tími hans mun skiptast jafnt milli þessara tveggja verkefna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Alcoa á Íslandi.

„Gangsetning Fjarðaáls hefur gengið vel og rekstur þess er nú að komast í fastar skorður. Vinna að undirbúningi fyrir álver á Bakka við Húsavík heldur áfram samkvæmt áætlun og stefnt er að því að taka ákvörðun um byggingu álvers þar síðla næsta árs. Ég hlakka mjög til að geta sett aukinn kraft í það verkefni. Fjarðaál verður fyrirmynd nýrra álvera Alcoa í framtíðinni og  við viljum nýta þekkinguna sem þar hefur skapast til að byggja fyrirtækið áfram upp á Íslandi,“ segir Tómas í tilkynningunni.

Hafsteinn Viktorsson tekur við stöðu framkvæmdastjóra framleiðslu Fjarðaáls og mun sjá um daglegan rekstur álversins. Hluti samfélags- og upplýsingateymis Alcoa Fjarðaáls mun eftir breytingarnar starfa fyrir Alcoa á Íslandi.

Þá kemur fram að breytingarnar munu ekki hafa áhrif á daglegan rekstur Fjarðaáls en nokkrar skipulagsbreytingar verða á yfirstjórn álversins.