„Verkefnið er í raun í ákveðinni biðstöðu,“ segir Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa á Íslandi þegar hann er spurður um uppbyggingu álvers á Bakka.

Sem kunnugt er ákvað ríkisstjórnin að framlengja ekki viljayfirlýsingu um byggingu álversins sem rann út um síðustu áramót.

„Mér fannst það ekki sannfærandi að framlengja ekki viljayfirlýsinguna því við höfum hingað til, alveg frá árinu 2006, unnið mjög náið með stjórnvöldum, bæði ríkisstjórninni og eins sveitastjórnum á svæðinu. Það voru margir sem höfðu áhuga á því að nýta jarðvarmaorkuna þarna en við vorum valin til þess,“ segir Tómas Már.

„Við bíðum núna eftir útspili frá ríkisstjórninni um það hvort og þá hvernig hún vill halda áfram. Ríkisstjórnin hefur sagt að það sé ekki verið að skella hurðinni á okkur, bara verið að sjá hvort fleiri hafi áhuga á orkunýtingunni. Á móti bendi ég á að í heilt ár hefur ekki verið til staðar nein viljayfirlýsing út af orkunni, hún rann út fyrir ári. Landsvirkjun og Þeistareykjum hefur verið í sjálfs vald sett að tala við aðra út af orkunni og þeir hafa gert það þannig að það er ekki eins og tækifærið hafi ekki verið til staðar. Staðan er hins vegar sú að við höfum unnið eftir ákveðinni verkáætlun og gert það sem við áttum að gera.“

Þá segir Tómas Már að gert sé ráð fyrir að sameiginlegu mati á umhverfisáhrifum verði lokið í maí, en þar er um að ræða umhverfismat fyrir álverið á Bakka, Kröfluvirkjun II, Þeistareykjavirkjun og háspennulínu frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka. „Þá ættum við að vita nánar hvernig málið stendur,“ segir Tómas Már.

Tómas Már segir að hingað til hafi álframleiðendur haft mestan áhuga á því að nýta orkuna hér á landi. Áliðnaðurinn hefur verið mikið í umræðunni síðustu árin og svo virðist sem sú umræða eigi eftir að halda áfram. Í viðtali við Viðskiptablaðið fer Tómas Már yfir stöðu áliðnaðarins á Íslandi og atvinnulífsins almennt.

_____________________________

Nánar er rætt við Tómas Má í viðtali í í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .