*

laugardagur, 24. október 2020
Fólk 14. apríl 2020 14:59

Tómas Örn til Ríkissáttasemjara

Eftir ríflega 20 ár í Seðlabankanum fer Tómas Örn Kristinsson í nýja Kjaratölfræðinefnd hjá embætti ríkissáttasemjara.

Ritstjórn
Tómas Örn Kristinsson er með B.S. gráðu í tölvunarfræðum frá HÍ, MBA frá Rockford háskóla og meistaragráðu í tölfræði og upplýsingastjórnun frá Nova Universidade í Lissabon.
Aðsend mynd

Tómas Örn Kristinsson, töl- og tölvunarfræðingur, hóf störf hjá embætti ríkissáttasemjara í byrjun apríl, en hann hefur starfað í ríflega tvo áratugi hjá Seðlabankanum.

Tómas Örn starfar fyrir Kjaratölfræðinefnd, sem stofnuð var í lok síðasta árs til að stuðla að sameiginlegum skilningi aðila vinnumarkaðarins á eðli og þróun þeirra hagtalna sem skipta mestu máli við gerð kjarasamninga.

Starf Tómas Arnar felst m.a. í greiningum og skýrsluskrifum, en fyrsta útgáfa nefndarinnar verður í september 2020 - skömmu fyrir endurskoðun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.

Tómas Örn lauk B.S. gráðu í tölvunarfræðum frá Háskóla Íslands 1986, MBA prófi frá Rockford University 1988 og meistaragráðu í tölfræði og upplýsingastjórnun frá Nova Universidade í Lissabon 2017.

Tómas Örn starfaði hjá Seðlabanka Íslands frá árinu 1999 til 2020. Þar á undan var hann ritstjóri Vísbendingar í tvö og hálft ár, hjá Verðbréfaþingi Íslands í 5 ár og hjá Fjárfestingarfélagi Íslands í 3 ár. Kjaratölfræðinefnd er skipuð fulltrúum heildarsamtaka á vinnumarkaði auk fulltrúum frá forsætisráðuneytinu, félagsmálaráðuneytinu og Hagstofu Íslands.

Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari: „Stofnun Kjaratölfræðinefndar er mikið framfaraskref og við bindum miklar vonir við að hún muni gefa góðan grunn fyrir undirbúning og umræðu við gerð kjarasamninga.“

Edda Rós Karlsdóttir, formaður Kjaratölfræðinefndar: „Það er mikill fengur fyrir nefndina að fá Tómas Örn til starfa. Menntun hans og víðtæk reynsla nýtist vel í þeirri þróunarvinnu sem framundan er til að efla greiningar á kjaraþróun og bæta framsetningu þeirra.“