Tónleika til styrktar Styrktarfélagi krabbameinsjúkra barna verða haldnir í Háskólabíói 30. desember næst komandi.

Í tilkynningu vegna tónleikanna segir að það sé orðinn árviss viðburður að framvarðasveit íslenskrar popptónlistar komi saman við áramót í Háskólabíói við Hagatorg og stilli saman strengi til styrktar Styrktarfélagi krabbameinssjúkra  barna.

Árið í ár er engin undantekning og hefur dagskráin sjaldan eða aldrei verið eins glæsileg. Á undanförnum árum hafa  yfir 12 milljónir króna safnast á þessum tónleikum, og nú  er markmiðið að sú upphæð hækki í fjórtán milljónir króna.  Þess má geta að hljómsveitin Sálin hans Jóns míns sem kemur fram á tónleikunum kemur  nú fram á þessum tónleikum í níuna sinn.

Tónleikarnir voru fyrst haldnir árið 1998 en þá var það stórkaupmaðurinn Jóhannes Jónsson sem var kynnir á tónleikunum. Sömu styrktaraðilar hafa unnið að málinu í frá upphafi en það er Bylgjan, Stöð2, EB Hljóðkerfi og Concert.

Að gefnu tilefni er rétt að láta það fylgja að á tónleikunum í gegnum tíðina hefur komið fram rjómi þekktustu tónlistarmanna landsins á hverjum tíma og hafa allir þeir sem komið hafa að tónleikunum gefið vinnu sína til fulls. Háskólabíó gefið húsnæðið. Um leið hafa allir tæknimenn og aðrir starfsmenn tónleikanna gefið vinnu sína. Öll  fyrirtæki sem að verkefninu hafa komið hafa líka gefið alla sína vinnu. Að sjálfssögðu er engin breyting þar á.

Tónleikarnir fara fram í Háskólabíói sunnudaginn 30.  desember og hefjast  stundvíslega kl. 16:00, segir í tilkynningunni.