Alcoa Fjarðaál veitti í síðustu viku skipuleggjendum tónlistarhátíðarinnar Eistnaflugs á Neskaupstað hæsta einstaka styrkinn við árlega vorúthlutun Samfélagssjóðs Alcoa Fjarðaáls. Alls var úthlutað 8 milljónum króna til þrjátíu og tveggja verkefna á Austurlandi og rann ein milljón króna til Eistnaflugs.

Fram kemur í tilkynningu að Fjarðaál veitir samfélagsstyrki tvisvar á ári en með styrkjunum leitast fyrirtækið við að styðja við bakið á margvíslegum verkefnum sem gagnast íbúum svæðisins. Tónlistarhátíðin Eistnaflug í Neskaupstað hefur á síðustu árum fest sig í sessi sem ein helsta tónlistarhátíð landsins og vex umfang hennar ár frá ári. Nú er svo komið að hún flyst úr Egilsbúð yfir í íþróttahúsið í Neskaupstað. Eistnaflug er helsta innlenda uppskeruhátíð rokkara og hefur hróður hennar borist víða. Hátíðin hlaut t.a.m. Menningarverðlaun Austurlands árið 2012 og var tilnefnd til Eyrarrósarinnar 2013.

Mikil gróska á Austurlandi

Mikil gróska einkennir menningar- og tómstundarlíf á Austurlandi og gagnast styrkirnir bæði ungum sem öldnum. Sem dæmi um það má nefna verkefni við grunnskólann á Breiðdalsvík þar sem stendur til að útbúa plánetustíg (líkan af sólkerfinu) sem glæða mun forvitni um stærri veröld meðal ungu nemendanna. Hópur nema í Grunnskóla Reyðarfjarðar hlaut styrk til að taka þátt í heimsmeistarakeppni Legó í Bandaríkjunum og Félagsmiðstöð aldraðra í Hlymsölum fékk styrk til kaupa á langþráðri „overlock“ saumavél, svo fáein dæmi séu tekin.

Samfélagsábyrgð Fjarðaáls

Styrkveiting til góðra verka í nærsamfélaginu er aðeins hluti af þeirri markvissu viðleitni Alcoa Fjarðaáls að sýna í verki samfélagslega ábyrgð. Undir þeim formerkjum felast ýmsir þættir í rekstri fyrirtækis sem ekki snúa eingöngu að hagnaði. Til dæmis er unnið markvisst að því að jafna kynjahlutföll innan fyrirtækisins. Annar mikilvægur þáttur í samfélagslegri ábyrgð er að valda sem minnstum umhverfisáhrifum og fyrirtækið vinnur stöðugt að bættri tækni til þess að lágmarka þau. Alcoa Fjarðaál vill stuðla að sjálfbæru samfélagi og viðhalda gagnvirkum samskiptum við nágranna sína, til dæmis með árlegum íbúafundum. Þá eru starfsmenn hvattir til að sinna sjálfboðaliðastörfum og láta til sín taka á öllum sviðum samfélagsins.