Engin teikn eru á lofti um að hægt verði á framkvæmdum við tónlistar- og ráðstefnumiðstöðina sem verið er nú að byggja við Reykjavíkurhöfn þrátt fyrir lausafjárskort á fjármagnsmörkuðum og versnandi afkomu fyrirtækja, að sögn Höskuldar Ásgeirssonar, forstjóra Nýsis. Yfirumsjón með framkvæmdinni er í höndum Portus, sem Nýsir á að hálfu á móti Landsbanka.

„Það hefur ekki verið nein umræða í þá átt að hægja á þessum framkvæmdum, því menn eru búnir að skuldbinda sig gagnvart þeim aðilum sem ætla að nýta húsið, auk þess sem byrjað er að markaðssetja það sem ráðstefnuhöll. Það er búið að tryggja fjármögnun á þessari framkvæmd,” segir Höskuldur. „Verktakarnir eru á fullum dampi að steypa og byggja.”

Tímaáætlunin kveður á um að verkslok verði um áramótin 2009-2010 og kveðst Höskuldur vænta þess að hún standist.