Ákveðið hefur verið að fresta vinnu við byggingu Tónlistarhússins við höfnina í Reykjavík þar sem ÍAV  hafa ekki fengið greitt fyrir vinnu við byggingu hússins í þrjá mánuði.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ÍAV en vinnan átti að hefjast í dag að aflokun jólaleyfi.

Samkvæmt tilkynningunni hafa síðustu mánuði átt sér stað viðræður við Austurhöfn TR, sem er samstarfsvettvangur ríkis og Reykjavíkurborgar vegna byggingar og reksturs Tónlistarhúss, um kaup Austurhafnar á Eignarhaldsfélaginu Portusi sem er aðili að verksamningi við ÍAV um byggingu Tónlistarhússins.

Þá kemur fram að ekki hefur enn tekist að ljúka þessum viðræðum, þær sagðar flóknar og snerta m.a. ríkið, Reykjavíkurborg, Gamla Landsbankann, Nýja Landsbankann auk ÍAV.

„ÍAV hafa tekið þátt í þessum viðræðum að hluta til og sýnt mikinn skilning og þolinmæði,“ segir í tilkynningunni þar sem tilkynnt er um frestun framkvæmda á meðan samningum hefur ekki verið lokið.

Í tilkynningunni kemur fram að á verkstað hafa unnið á þriðja hundrað starfsmenn ÍAV og undirverktaka auk þess sem fjöldi undirverkaka hefur unnið að verkinu víðar. Starfsmenn ÍAV munu tímabundið flytjast í önnur verkefni félagsins.