Samkvæmt upplýsingum frá Menntamálaráðuneytinu er ekki unnt að svara því hver eigi að fjármagna áframhaldandi byggingu Tónlistarhússins. Fram til þessa hefur því verið haldið fram af framkvæmdaraðilum verkefnisins að Landsbankinn muni fjármagna verkið, m.a. með svokölluðu kúluláni. Á þriðjudag var því svo haldið fram að Landsbankinn, Glitnir og Kaupþing væru að búa sig undir að veita rösklega 14 milljarða króna lán til verkefnisins. Menntamálaráðuneytið svarar hins vegar fyrirspurn Viðskiptablaðsins á eftirfarandi hátt um hvernig og hver fjármagni verkið: „Ekki er unnt að svara þessu þar sem að málið er í vinnslu og skilmálar eru óundirritaðir. Það verða þó innlendar lánastofnanir."

Halldór Árnason ráðuneytisstjóri ítrekaði þetta í samtali á þriðjudag og sagði enga samninga við fyrrnefnda banka liggja fyrir. Hann staðfesti hins vegar fyrir upplýsingar blaðsins um að áætlað sé að það kosti 13,3 milljarða að klára húsið.

Sjá nánari umfjöllun um málið í Viðskiptablaðinu í dag.