Í viðskiptablaðinu í dag er greint frá því að kostnaðurinn við byggingu Tónlistarhússins við Austurhöfnina er þegar kominn yfir þau mörk að ríki og borgar þyki verjandi að hætta við bygginguna. Samt eru enn til menn sem vilja í það minnsta hægja á framkvæmdinni.

Bygging Tónlistarhúss við Austurhöfnina í Reykjavík upp á þriðja tug milljarða króna þykir afar metnaðarfull og er afrakstur áratuga væntinga tónlistarfólks um að skapa veglega umgjörð um tónlistarlífið í landinu. Þrátt fyrir efnahagshrunið telja ríki og borg ekki verjandi að hætta við byggingaráformin og er nú stefnt að því húsið verði fullbúið í janúar 2011.

Stærstu rökin fyrir því að halda áfram eru þau að það kosti marga milljarða króna að rifta samningum við verktaka og birgja og sá kostnaður hefði á endanum lent ýmist á ríkisreknu bönkunum eða beint á ríki og borg.

Heildarkostnaður með greiðslum vegna tengdra verkefna Nýsis og Portusar verða samtals 25,1 milljarður króna og um 35 milljarðar ef hliðarverkefni vegna gatna og lóða eru reiknuð með, en án stokks eða jarðganga.

Gefið hefur verið út að árlegur sameiginlegur kostnaður ríkis og borgar (Austurhafnar-TR) næstu 35 árin muni nema 808 milljónum króna. Samtals gerir það um 28,3 milljarða, en um 3 milljarðar af því er þá væntanlega hluti rekstarkostnaðar. Samkvæmt samningi áttu greiðslur að hefjast um leið og húsið yrði tilbúið í desember 2009.

Miðað við fyrirliggjandi tölur er fyrirséð að kostnaður sem er þegar fallinn og mun falla á ríki og borg vegna Tónlistarhússins og tengdra verkefna á svæðinu að Lækjartorgi verður að minnsta kosti um 38 milljarðar króna.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.