Samningur um einkaframkvæmd við Portus vegna byggingar Tónlistar- og ráðstefnuhússins (TR) var undirritaður í mars 2006. Þá var stofnkostnaður hússins áætlaður 12,5 milljarðar króna. Borg og ríki áttu að greiða það upp með 683 milljóna króna árlegri greiðslu í 35 ár, eða samtals rúma 23,9 milljarða króna, innifalinn er þá rekstarkostnaður hússins. Nú er stofnkostnaður áætlaður 18 milljarðar svo miðað við sama greiðsluhlutfall gæti húsið kostað ríki og borg rúma 34,4 milljarða króna á 35 árum.

Gert var ráð fyrir að húsið yrði fjármagnað með eigin framlagi eigenda Eignarhaldsfélagsins Portusar hf. ásamt lánsfé, auk fasts árlegs framlags eigenda Austurhafnar-TR þ.e. frá ríki og borg, sem greiddist á 35 árum. Austurhöfn- TR er fyrirtæki í eigu ríkis og Reykjavíkurborgar, þar sem ríkið á 54% í fyrirtækinu og Reykjavíkurborg 46%.

Á vefsíðu Skipulags- og byggingasviðs Reykjavíkurborgar var greint frá samningsundirrituninni 13. mars 2006. Þar kom fram að umsamið framlag Austurhafnar yrði um 608 milljónir króna á ári á þávirði. Auk þess áttu að koma til leigugreiðslur frá Sinfóníuhljómsveit Íslands um 75 milljónir á ári á þávirði, eða samtals 683 milljónir króna. Það gerir 23,9 milljarða á 35 árum miðað við 12,5 milljarða króna stofnkostnað. Vaxtakostnaður og hlutur Portusar vegna útreiknaðs rekstrarkostnaðar hússins og annarra þátta yrði þá 11,4 milljarðar króna á tímabilinu.

Í haust var talið að húsið myndi kosta fullbúið um 18 milljarða króna. Miðað við sama greiðsluhlutfall af þeirri upphæð vegna leigu og rekstrar gæti það þýtt kostnað fyrir ríki og borg upp á um 34,4 milljarða á 35 árum. Það gerir tæpar 983 milljónir króna ári, eða tæpar 82 milljónir mánaðarlega í 420 mánuði.