Sjónvarpið greindi frá því í fréttatíma sínum klukkan tíu í kvöld að búið væri að tryggja fjármögnun áframhaldandi byggingarframkvæmda Tónlistarhússins upp á rúma 14 milljarða króna. Aðeins eigi eftir að samþykkja gjörninginn hjá ríki og borg. Munu ríkisbankarnir þrír koma að verkefninu undir forystu Landsbankans.

Þá var einnig greint frá því að Austurhöfn hafi náð samkomulagi við verktakafyrirtækið ÍAV um áframhaldandi vinnu við verkið, en til hafi staðið að stöðva framkvæmdir þar sem ekkert hafði fengist greitt frá því framkvæmdir hófust að nýju nú eftir áramót.