Íslenska fyrirtækið Gogoyoko.com sem heldur úti samnefndri tónlistarveitu greiðir 2,34 íslenskar krónur til tónlistarmanna fyrir hverja hlustun sem lag þeirra fær á síðunni. Upphæðin jafngildir 2 centum á hlustun.

Um streymisgreiðslu er að ræða þar sem listamaður eða hljómsveit sem samdi lagið fær borgar fyrir hverja hlustun sem lagið fær á heimasíðunni. Yfir 800 tónlistarmenn fá greiðslu samkvæmt tilkynningu frá gogoyoko.com.

Segir að upphæðin sé sú hæsta sem greidd hefur verið af streymisþjónustu og ætti að gera þjónustuna enn meira aðlaðandi fyrir óháða listamenn, útgáfur og dreifingaraðila.

Tekjur síðunnar koma af auglýsingum á síðunni, fyrir leyfisveitingar til þriðja aðila vegna notkun tónlistarinnar auk samstarfs við fyrirtæki sem óska þess að nýta tækni frá gogoyoko. Má þar nefna nýjan Google Android tónlistarspilara fyrir farsíma.

Gogoyoko fylgir hugmyndafræði sem kallast „fair play in music“ og eru greiðslurnar liður í því. „Gogoyoko er tónlistarveita og samskiptavefur, en okkar aðalmarkmið er að vinna að því að listamenn og rétthafar fái greitt á sanngjarnan máta fyrir notkun á verkum þeirra,“ segir Alex MacNeil, framkvæmdastjóri gogoyoko.com.

Hingað til hefur engin raunhæf lausn verið í boði hvað varðar greiðslur til listamanna og rétthafa fyrir streymi á internetinu og þá sérstaklega fyrir óháða listamenn og útgáfur eins og þær sem gogoyoko höfðar helst til.“ Í hvert sinn sem þú hlustar á lag á gogoyoko fær listamaðurinn rúmlega 2 cent. Við greiðum beint til listamannsins eða rétthafa auk hefðbundinna greiðslna til STEF,“ segir Alex. „Fólk hefur viðrað efasemdir um hvort að þetta sé á annað borð gerlegt, en við erum sannfærð um að lausnin sé einföld. Þetta er klárlega besta mögulega útkoman og við teljum að okkar listamenn séu sammála.“