Nú er það orðið ljóst að þeir Jeremy Clarkson, Richard hammond og James May munu áfram stýra hinum gríðarlega vinsælu Top Gear bílaþáttum næstu þrjú árin. Þeir hafa allir endurnýjað samninga sína við BBC og munu því áfram láta gamminn geysa eins og þeim einum er lagið fjölmörgum aðdáendum sínum til mikillar gleði. Hluti samningsins nær til þess að Hammond og May fá hluta hagnaðar af sölu þáttanna á móti vinnuframlagi þeirra við að auglýsa þá.

Ástæða þessa er að Jeremy Clarkson hafði samið fyrir fimm árum á annan hátt við BBC en hinir tveir, sem tryggði honum svo umtalsverðar tekjur af sölu þáttanna utan Bretlands. Svo háar eru þær tekjur að Clarkson er nú hæst launaði starfsmaður BBC. Nú fá hammond og May stærri hluta af kökunni. BBC ætti svo sem að hafa vel efni á því að borga þeim betur þar sem tekjurnar af sölu þáttanna eru gríðarlegar.