Atvinnuleysi jókst um allan heim og Kínverjar sýndu mátt sinn. Árás Kínverja á Google og ofstopaviðbrögð þeirra við því þegar Nóbelsverðlaunin fóru til andófsmannsins kínverska Liu Xiaobo ullu miklum titringi. Jarðskjálfti á Haíti og flóð í Pakistan ullu gríðarlegri eyðileggingu og hörmungum.

5. Rúmlega 10% atvinnuleysi í Evrópu og tæplega 10% í Bandaríkjunum. Efnahagsvandi heimsins er víðtækur og viðvarandi atvinnuleysi veldur áhyggjum. Félagsleg vandamál aukast þessu samhliða. Batinn er hægari en vonast var til.

6. Ekkert stöðvar Kína. Árás á Google og viðskiptaþvinganir gagnvart Norðmönnum, eftir að Nóbelsverðlaunin fóru til kínverska andófsmannsins Liu Xiaobo, sýna svo ekki verður um villst að enginn getur hundsað völd Kínverja. Árás kínverskra yfirvalda á Google, meðal annars netþjóna fyrir Gmail, var afhjúpuð endanlega með Wikileaks gögnum. Ekkert hefur spurst til Liu Xiaobo eftir að Nóbelsverðlaunin fóru til hans fyrir baráttu fyrir pólitískum umbótum í Kína. Hann er í fangelsi, fyrir andófið.

7. Flóð í fjallahéruðum Pakistans kostuðu 20 milljónir íbúa heimilin og tugþúsundir lífið. Helsta vandamálið eru miklir erfiðleikar við að koma hjálpargögnum á vettvang. Þá geta fjölmiðlamenn ekki komist auðveldlega á vettvang. Sem þýðir, að heimurinn skynjar ekki alvarleika hamfaranna, að því er yfirmenn í bandaríska hernum sögðu þegar þess var minnst að fellibylurinn Katrina setti stóran hluta New Orleans undir vatn. Þeir vildu ekki ræða um Katrinu og sögðu heimsbyggðina ekki skilja umfang hamfarana í Pakistan. Þær væru a.m.k. jafn miklar og þegar Tsunami-flóðbylgjan skall á eyjum við Tæland á jóladag 2005. Þá fórust yfir 240 þúsund. Jarðskjálftinn á Háiti 12. janúar lagði landið gjörsamlega í rúst. Um 230 þúsund létust, stjórnkerfi landsins hrundi og húsbyggingar jöfnuðust við jörðu. Landinu hefur síðan verið stjórnað, af veikum mætti, með alþjóðaher Sameinuðu þjóðanna.