Árið 2010 hefur verið einstakt fréttaár jafnt innanlands sem erlendis. Á Íslandi hefur uppgjörið við hrunið haldið áfram samhliða tilraunum til að endurreisa laskað þjóðfélag sem varð til í kjölfar þess. Endrum og sinnum hafa óblíð náttúruöflin síðan lagt sitt til málanna.

Erlendis kom umfang og áhrif alþjóðlegu efnahagskreppunnar fram af fullum þunga og fréttir af aðgerðum til að takast á við þann vanda voru afar fyrirferðamiklar.

Auk þess skaraðist fréttaflutningur frá litla Íslandi við heimspressuna þegar Eyjafjallajökull lamaði flugsamgöngur í Evrópu um tíma og Wikileaks hóf að birta leynigögn við vægast sagt litlar vinsældir stórvelda hins vestræna heims. Viðskiptablaðið fór yfir árið og valdi tíu stærstu innlendu og erlendu fréttir ársins. Umfjöllunina má finna í heild sinni í Áramótablaði Viðskiptablaðsins.

Handtökur, þjóðkirkjan og Wikileaks

Sæti 8 til 10:

8. Hreiðar Már Sigurðsson og Magnús Guðmundsson voru handteknir og úrskurðaðir í gæsluvarðhald þann 6. maí. Handtökurnar voru í tengslum við rannsókn embættis Sérstaks saksóknara á margskonar meintum brotum þeirra. Í kjölfarið var Ingólfur Helgason einnig úrskurðaður í gæsluvarðhald og Steingrímur Kárason settur í farbann. Þá var lýst eftir Sigurði Einarssyni hjá Interpol eftir að hann neitaði að mæta til yfirheyrslu.

9. Guðrún Ebba, dóttir Ólafs Skúlasonar fyrrum biskups, fór á fund Kirkjuráðs þann 16. ágúst og sagði frá kynferðislegri misnotkun sem hún hafði orðið fyrir af hendi föður síns sem barn . Áður höfðu nokkrar konur ásakað Ólaf um kynferðisbrot gegn sér. Í kjölfarið var eins og flóðgáttir hafi brostið og fjölmargar konur stigu fram til að lýsa kynferðisofbeldi sem þær höfðu orðið fyrir af hendi aðila innan ýmissa trúfélaga.

10. Wikilieaks-hópurinn komst í heimsfréttirnar þegar hann birti þúsundir trúnaðarskjala um hernað Bandaríkjamanna í Írak og Afganistan í apríl. Meðal annars var sýnt myndband af því þegar Bandaríkjaher drap almenna borgara í Írak. Fimm af stærstu dagblöðum heims fengu líka aðgang að gögnunum og birtu fréttir af þeim. Wikileaks og sömu fjölmiðlar hófu síðan að birta upplýsingar úr leyniskjölum bandarísku utanríkisþjónustunnar í lok nóvember, sem meðal annars höfðu að geyma upplýsingar um íslenska stjórnamálamenn og stofnanir.