Aðalmeðferð í máli slitastjórnar Kaupþings gegn Sigurði Einarssyni, fyrrverandi starfandi stjórnarformanni bankans, hófst í sal 101 í Héraðsdómi Reykjavíkur stundarfjórðung yfir klukkan níu í morgun. Málið er hluti af málarekstri slitastjórnar Kaupþings og lýtur að riftun ákvörðunar stjórnar Kaupþings að fella niður persónar ábyrgðir starfsmanna bankans sem hann hafði veitt lán hálfum mánuði áður en bankinn féll.

Talsverðar fjárhæðir eru undir en í september árið 2008 hafði Sigurður fengið 7,8 milljarða króna að láni hjá bankanum. Slitastjórnin hefur krafist þess að sjálfsskuldarábyrgð á lánum til Sigurðar haldi sér og að hann greiði þrotabúinu í kringum 600 milljónir króna.

Mál Kaupþings var þingfest í héraðsdómi í september árið 2010 en hefur þvælst fram og til baka í kerfinu þar sem ný gögn hafa verið lögð fram og málinu frestað margsinnis.

Gert er ráð fyrir að mál slitastjórnar Kaupþings standi yfir í allan dag eða til klukkan 16.

Lárus, Jón og Steini í Kók vilja tryggingu

Nú klukkan tíu hófst svo munnlegur málaflutningur í máli þeirra Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra FL Group, Lárusar Welding og Þorsteins M. Jónssonar, löngum kenndur við Kók og Vífilfell, gegn Tryggingamiðstöðinni. Málið fer fram í sal 402.

FL Group átti Tryggingamiðstöðina á sínum tíma, var stærsti hluthafi Glitnis, og höfðu þremenningarnir stjórnendatryggingu hjá félaginu sem ætlar var að greiða tjón af óréttmætum athöfnum stjórnenda bankans. Þeir Lárus, Jón og Þorsteinn sátu í stjórn Glitnis á sínum tíma.

Í tryggingaskilmálum var kveðið á um að Glitnir hefði 30 daga til að tilkynna um kröfur frá því tryggingin rynni út. Það gerðist í maí 2009. Á móti gat bankinn keypt viðbótarfrest að ákveðnum skilmálum uppfylltum. Tryggingamiðstöðin taldi hins vegar að skilmálarnir hafi ekki verið uppfylltir og fengu þremenningarnir því ekki viðbótartrygginguna.