Gunnar I. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa, og Lárus Óskarsson, framkvæmdastjóri Aðfanga, seldu í dag öll hlutabréf sín í Högum fyrir samtals 48,6 milljónir króna. Gunnar Ingi seldi 1.217.586 hlut í félaginu en Lárus 1.217.585 og fá þeir rétt rúmar 24 milljónir króna hvor við söluna.

Eignabjarg, dótturfélag Arion banka, afhenti Gunnari og Lárusi 1.095.827 hluti hvorum í Högum á öðrum ársfjórðungi í fyrra. Hlutabréfin voru án endurgjalds og því þurftu þeir ekkert að greiða fyrir hlutabréfin.

Í skráningarlýsingu Haga segir orðrétt: Samningur þessi tengdist uppgjöri á eldra samkomulagi Arion banka hf og lykilstjórnendanna sem var gert þegar bankinn var að ná yfirráðum á Högum.

Söluhömlur voru á hlutum stjórnendanna í Högum til 30. júlí í sumar.

Þegar hlutabréf Haga voru skráð í Kauphöllina í desember í fyrra stóð gengi þeirra í 13,5 krónum á hlut. Það er nú komið í 19,9 krónur og hefur aldrei verið hærra.