Hið árlega Tekjublað Frjálsrar Verslunar kom út á þriðjudaginn, en þar mátti finna tekjur 3.725 Íslendinga á síðasta ári. Þótt tekjur hafi ekki verið eini þátturinn sem farið var eftir við val á þeim einstaklingum sem þar mátti finna, er óhætt að segja að þeir hafi allflestir haft það vel bærilegt fjárhagslega. Meðaltekjur í blaðinu eru 1.642 þúsund krónur á mánuði.

Launahæstu forstjórarnir hækka nokkuð duglega milli ára. Meðallaun efstu 25 forstjóranna voru 9,3 milljónir og hækka um 31% milli ára, en sé horft til efstu 50 lækka þau í 6,8 milljónir og 25% árshækkun, og hjá efstu 100 eru þau tæpar 5 og hafa hækkað um 18%.

Skortur á skilanefndapeningum dregur niður meðaltalið
Þeir sem tróna á toppi listans yfir starfsmenn fjármálafyrirtækja hafa hinsvegar lítið sem ekkert hækkað, en ætla má að starfslok skilanefnda föllnu bankanna eigi stóran þátt í því. Sé hópurinn í heild skoðaður hafa meðallaun þó hækkað um 6,7% og nema um 2,2 milljónum, og miðgildið um rúm 11% og nemur 1,9.

Laun embættismanna og forstjóra opinberra fyrirtækja lækka lítillega, en þeirrar lækkunar gætir einkum á toppnum, þar sem meðallaun efstu 10 lækka um 6,4%.

Meðal þeirra 25 áhrifavalda sem Frjáls Verslun skoðaði launin hjá voru meðallaunin litlar 391 þúsund krónur, og sá tekjulægsti hafði aðeins 118 þúsund á mánuði. Sé litið til efstu 10 hækka meðallaunin í rétt tæpar 600 þúsund krónur, en það er undir bæði meðal- og miðgildislaunum landsmanna allra.

Að lokum ber þó að nefna að tölurnar hér að ofan byggja á uppgefnum tekjum einstaklinga samkvæmt skattframtali, og listar blaðsins eru ekki tæmandi. Þá er athygli vakin á því að um allar skattskyldar tekjur er að ræða, og því kunna föst, regluleg laun viðkomandi að vera lægri.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Riftunarmál gegn fyrrverandi eigendum Víðis
  • Staða nokkurra vinsælla veitingastaða
  • Hugsanlegt bótamál gegn fyrrverandi stjórnendum Wow air
  • Tillögur um aukna aðstoð við íbúðafjárfestingu á landsbyggðinni
  • Týr fjallar um komu varaforseta Bandaríkjanna til landsins
  • Rætt er við Sigríði Ingvarsdóttur, framkvæmdastjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands
  • Óðinn skrifar um nýjan seðlabankastjóra og innanhússvandræði Sjálfstæðisflokksins
  • Nýtt fyrirtæki stofnað af fyrrverandi starfsmönnum Wow air
  • Rætt er við Árna Pétur Jónsson, nýráðinn forstjóra Skeljungs