Bretar missa AAA-lánshæfiseinkunn sína hjá Moody's fari svo að landsframleiðsla þar dragist saman á þessu ári og samdráttarskeið renna upp að nýju. Sendinefnd frá matsfyrirtækinu fundaði með George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands, um efnahagsmál landsins í gærkvöldi. Um árlegan stöðufund var að ræða.

Breska dagblaðið Guardian segir á vef sínum um málið að fulltrúar matsfyrirtækisins hafi lagt á Osborne að hann verði að fylgjast grannt með þróun mála, staðan sé einkar viðkvæm þar sem bæði þurfi að huga að hagvexti á sama tíma og draga þurfi úr halla á fjárlögum.

Blaðið segir ekki búið að taka ákvörðun um lánshæfiseinkunnir Bretlands. Versni horfur í Bretlandi megi ekki útiloka að einkunnir breska ríkisins verði lækkaðar eftir áramótin.