Greiningardeild Arion banka spáir 5,9% hagvexti í ár, 3% á næsta ári og 2,9% árið 2019. Hagvöxturinn verður því um og yfir meðalhagvexti undanfarinna 35 ára (um 3%) út spátímann og ekki úr takti við fyrri hagvaxtarskeið.

Þetta kemur fram í nýrri hagspá Arion banka fram til ársins 2019, sem kynnt var í gær. Þar varpaði Greiningardeildin fram þeirri spurningu hvort hagsveiflan á Íslandi hefði náð hátindi, en hagvöxtur var 4,1% árið 2015 og 7,2% í fyrra.

„Samkvæmt okkar spá virðist sem toppnum hafi verið náð í fyrra,“ sagði Erna Björg Sverrisdóttir hjá Greiningardeild Arion banka á morgunfundi deildarinnar í gær. „En þegar fram í sækir – kannski ekki í ár – sjáum við fram á að það fari aðeins að hægja á vextinum og að hann verði nær því sem gengur og gerist í öðrum þróuðum ríkjum.“

Einkaneysla og fjárfesting draga vagninn

Líkt og fyrri ár verður hagvöxtur út spátímann drifinn áfram af einkaneyslu og fjárfestingu. Aukin velta og bjartsýni heimilanna mun styðja við áframhaldandi einkaneysluvöxt. Aðstæður á vinnumarkaði eru til þess fallnar að styðja við áframhaldandi einkaneysluvöxt, en laun og kaupmáttur ráðstöfunartekna fer hækkandi og atvinnuleysi minnkandi.

Greiningardeildin telur að fjárfestingarstigið verði yfir 35- ára meðaltali sínu á spátímanum. Sterkur vöxtur verður í fjárfestingum á þessu ári – 18,9% borið saman við 22,7% í fyrra – en síðan hægir verulega á fjárfestingarvextinum þegar áhrif stóriðju og raforkuframleiðslu gætir ekki lengur. Íbúðafjárfesting mun aukast en lítið verður unnið á húsnæðisskortinum.

Greiningardeildin spáir að verðbólgan muni stíga fram til ársins 2019 og fara í rúmlega 4%, en engu að síður spáir Greiningardeildin vaxtalækkun á árinu. Gert er ráð fyrir því að raunvextir fari niður fyrir 1% á þessu ári.

Gert er ráð fyrir lítils háttar styrkingu krónunnar á þessu ári, en svo fer krónan að veikjast. Auknar vísbendingar eru um að sterkt gengi krónunnar sé farið að hafa áhrif á ferðamenn og mun því hægja á vexti erlendra ferðamanna hér á landi sökum hás hlutfallslegs verðs. Innflutningur á neysluvörum og þjónustu verður mikill og mun þjónustu- útflutningur drífa áfram útflutningsvöxt. Spáð er jákvæðum – en minnkandi – viðskiptajöfnuði út spátímann.

Óvissa eftir haftalosun

Greiningardeild Arion banka nefnir fimm áhættu- og óvissuþætti í hagspá sinni sem gætu raskað jafnvægi í þjóðarbúskapnum á næstu árum. Verði ferðaþjónustan fyrir skakkaföllum mun það hafa töluverð áhrif á hagkerfið, þar sem hún er orðin einn af grunnatvinnuvegum landsins. Óvíst er hvaða áhrif hagvöxtur og verðbólga í helstu viðskiptalöndum Íslands hafa á utanríkisverslun og verðbólgu hér á landi.

Þá er þörfin á innfluttu vinnuafli óljós og ekki liggur í augum uppi hvort íbúðafjárfesting muni slá á verðhækkanir á fasteignamarkaði. Í kjölfar losunar hafta hefur óvissa aukist með gengisþróun krónunnar, sem hefur mikil áhrif á innlenda eftirspurn, utanríkisviðskipti, verð- bólgu og hagvöxt.