*

miðvikudagur, 22. september 2021
Innlent 28. september 2019 12:01

Toppnum náð í fyrra

Byggingamarkaðurinn náði toppi í fyrra að sögn forstjóra Steypustöðvarinnar.

Ritstjórn
Björn Ingi Victorsson, forstjóri Steypustöðvarinnar.
Gígja Einars

Steypustöðin hagnaðist um tæplega 1,2 milljarða á síðasta ári og rúmlega tvöfaldaðist hagnaðurinn frá árinu 2017. Þá nam velta fyrirtækisins tæplega 10,3 milljörðum, samanborið við 6,6 milljarða veltu árið 2017.

„Byggingamarkaðurinn náði algjörum toppi í fyrra og við höfum aldrei framleitt jafn mikið af steypu eins og við gerðum á árinu 2018 á suðvesturhorni landsins. Það skýrir mikla veltu en svo eru ýmsir aðrir þættir sem skipta máli þegar maður skoðar ástæður þessarar veltuaukningar. Fjárfesting okkar í þremur félögum í lok árs 2017 og í upphafi árs 2018 skýrir jafnframt aukna veltu og hagnað," segir Björn Ingi Victorsson, forstjóri Steypustöðvarinnar.

„Reksturinn á síðasta ári gekk vel. Það eru hins vegar blikur á lofti á þessum markaði sem við störfum á. Það hefur átt sér stað minnkun á markaðnum í ár, en það er þó eitthvað sem við bjuggumst við. Við gerðum ráð fyrir því að steypt magn myndi minnka um 20% hjá okkur á þessu ári og það er að raungerast. Auk þess er komin aukin samkeppni á steypuhluta markaðarins með tilkomu nýs félags á markaðinn. Samkeppnin á markaðnum er því mjög mikil," bætir hann við.

Hagsveiflan hefur áhrif á reksturinn

Um áramótin 2016/2017 keypti Steypustöðin Loftorku Borgarnesi ehf. Loftorka leggur áherslu á sölu á forsteyptum einingum og rörum og segir Björn Ingi að notkun eininga geti hjálpað til við að lækka byggingarkostnað.

„Hjá Loftorku gekk sömuleiðis mjög vel. Það er krafa frá markaðnum að við bjóðum upp á ódýrar lausnir án þess að draga úr gæðum. Við höfum átt í góðu samstarfi við arkitekta, verktaka og verkfræðinga við að reyna finna leiðir til þess að lækka byggingakostnað og forsteyptar einingar eru mjög góður kostur í því samhengi. Einingaparturinn gengur mjög vel og það hefur enginn samdráttur átt sér stað í þeim hluta fyrirtækisins."

Björn Ingi bendir á að gengi fyrirtækja í byggingargeiranum sveiflist nokkuð eftir stöðu efnahagslífsins.

„Það er oft sagt að félög í okkar geira séu einna fyrst til að finna fyrir samdrætti í efnahagslífinu. Það sem ég hef stærstar áhyggjur af í dag er að það er mikil eftirspurn eftir íbúðum og það hefur verið erfitt fyrir verktaka að fjármagna ný verkefni. Í dag eru að fara af stað miklu færri byggingaframkvæmdir á íbúðarhúsnæði en á síðasta ári. Maður hefði auðvitað ekki viljað sjá þá þróun, en þetta er að gerast útaf hertum kröfum í bankaumhverfinu og nú um áramótin á að herða þær kröfur enn meira. Bankarnir halda því að sér höndunum og eru tregir til að lána fyrir byggingarverkefnum.

Það er því mjög mikilvægt að stjórnvöld komi á einhvern hátt til móts við atvinnulífið, til að tryggja að það verði nóg framboð af íbúðarhúsnæði. Skortur leiðir aðeins til hækkandi byggingar-, leigu- og íbúðarverðs. Það er ekki eitthvað sem stjórnvöld og við íbúarnir í landinu viljum. Maður hafði séð fyrir sér að það myndi kannski nást einhvers konar stöðugleiki í þessum málum og ég hef því áhyggjur af því að það sé nokkur samdráttur í byggingu nýrra íbúða á þessu ári miðað við í fyrra."

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér.