Heimsmarkaðsverð á gulli náði hæstu hæðum í síðari hluta ágúst og í byrjun septembermánaðar þegar áhættufælni fjárfesta var sem mest, m.a. vegna skuldakreppunnar í Evrópu sem og ládeyðunnar í heimshagkerfinu almennt. Sem hæst fór verð í 1.889 dali fyrir hverja góðmálmaúnsu (e. troy oz) en ein slík vegur 31,1 gramm, og er þá átt við dagslokaverð, en þess eru dæmi að innan dags hafi verðið rofið 1.900 dala múrinn – t.d. fór verð í 1.902 dali innan dags fyrir skömmu. Hér er vitaskuld um að ræða hæsta nafnvirði sögunnar en ekki er mjög langt síðan heimsmarkaðsverð á gulli fór í fyrsta skipti yfir 1.500 dali, 21. apríl sl., og í ársbyrjun kostaði únsan 1.421 dal. Þegar litið er til raunvirðis á gullið þó enn talsvert langt í land með að ná methæðum. Hvað um það, hér er ekki ætlunin að tala um hækkandi gullverð enda er sú tugga orðin margtuggin. Hér er umfjöllunarefnið þess í stað vangaveltur sérfræðinga um hvort gullverð hafi náð toppnum að þessu sinni og muni fara lækkandi.

Dollaraskortur

Fjallað er um málið í frétt á vef sænska viðskiptablaðsins Dagens Industri í vikunni og þar er haft eftir Mariu Malmqvist, yfirmanni greiningar hjá CMC Markets, að áhættulyst markaðarins sé að aukast á ný og þar af leiðandi selji menn gull enda er gull sá eignaflokkur sem fjárfestar leita í þegar áhættufælni eykst. Mikilvægur þáttur í þessa r i þróu n er sú ákvörðun seðlabanka Bandaríkjanna, Evrópu og Japans í síðustu viku að flæða markaðinn með dollurum en eins og m.a. Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefur bent á var orðinn tilfinnanlegur dollaraskortur á markaðnum sem olli talsverðri geðshræringu markaðsaðila. Voru sumir þeirra að sögn Financial Times m.a.s. farnir að selja gull til þess að kaupa dollara. Þá má ekki gleyma því að þessi dollaraskortur, auk óvissunar um örlög evrunnar, varð vitanlega til þess að þrýsta gengi dollars upp og hefur það haft sitt að segja um þróun gullverðs undanfarna daga. Gull er eins og áður er fram komið verðlagt í dollurum og þegar gengi dollarsins styrkist lækkar gullverð að öllu öðru óbreyttu.

Rauneftirspurn

Magnus Strömer, sérfræðingur hjá hrávörudeild Handelsbanken, tekur undir með Malmqvist og segist telja að það þurfi einhverjar verulega neikvæðar fréttir til þess að gullverð hækki á nýjan leik á næstunni og mælir með því að fjárfestar leysi inn hagnað. Umtalsverð lækkun er í kortunum að mati Strömer en þar er Malmqvist reyndar ekki á sama máli. Hún segir rauneftirspurn eftir gulli í verðbilinu 1.700-1.800 dalir á únsu og því sé hækkanir ekki eingöngu drifnar áfram af spákaupmönnum sem aldrei hyggist eiga gullið. Í upphafi þessarar viku mátti greina talsverða taugaveiklun á hlutabréfamörkuðum, helstu vísitölur Evrópu og Asíu lækkuðu um 2-3% á mánudag, sem og á hrávörumörkuðum þar sem nær allar hrávörur lækkuðu. Það rennir stoðum undir mat þeirra Malmqvist og Strömer að þrátt fyrir þetta hækkaði gull aðeins um hálft prósent á sama tíma en miðað við þróun undanfarinna vikna og mánaða hefði gullverðið átt að hækka umtalsvert mikið meira samhliða annarri eins taugaveiklun.