Samanburður á tölum Hagstofunnar um stöðuna á vinnumarkaði bendir til að toppi hagsveiflunnar hafi verið náð árið 2016 að því er segir í nýjust Hagsjá Landsbankans .

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í vikunni mældist atvinnuleysi á fjórða ársfjórðungi síðasta árs 2,6%, Greiningardeild bankans bendir þó á að þó atvinnuleysi hafi haldið áfram að minnka á árinu 2017, sýni allar aðrar hlutfallstölur um stöðuna á vinnumarkaði hæstu stöðu á árinu 2016.

  • Atvinnuþátttaka hafi verið einu prósentustigi lægri árið 2017 en 2016.
  • Vinnutíminn var styttri á árinu 2017 en 2016, og á það bæði við um meðalfjölda vinnustunda og venjulegan vinnutíma.
  • Störfum er ekki að fjölga eins mikið og verið hefur. Fjöldi starfandi fólks hefur haldist nokkuð stöðugur síðustu mánuði miðað við meðaltal síðustu 12 mánaða, eftir langvarandi fjölgun starfandi á vinnumarkaði.
  • Bendir bankinn jafnframt á að atvinnuleysið minnkaði minna á árinu 2017 en það gerði á milli áranna 2015 og 2016.

Segir bankinn að á árunum 2015 til 2017 hafi vinnuaflinu fjölgaði um 8 þúsund, eða rúm 4%, en fjöldi starfandi jókst um tæp 10 þúsund, eða um 5,6%. Hins vegar fækkaði atvinnulausum um 2 þúsund manns, eða um rúman fjórðung.

Spáir bankinn því að eftir mikla fjölgun starfa og minnkun atvinnuleysis, með tilheyrandi fjölgun erlendra ríkisborgara á vinnumarkaði séu nú rólegri tímar í vændum. Farið sé að draga úr spennunni á markaði, og sé sú þróun þó í góðu samræmi við spár flestra greinenda um hagvöxt og þróun efnahagslífsins á næstu árum.