*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Erlent 8. maí 2019 07:57

Töpuðu 140 milljörðum í fyrsta uppgjöri

Lyft tapaði 1,14 milljörðum dala á fyrsta fjórðungi. Tekjur tvöfölduðust milli ára og notendum fjölgaði um þriðjung.

Ritstjórn
John Zimmer er forstjóri og annar stofnenda Lyft.
Aðsend mynd

Leigubílafyrirtækið Lyft tapaði 1,14 milljörðum Bandaríkjadala – tæpum 140 milljörðum króna – á fyrsta ársfjórðungi ársins, samkvæmt fyrsta fjórðungsuppgjöri félagsins síðan það var skráð á markað í lok mars.

Tæpar 900 milljónir dala af tapinu voru útgjöld í tengslum við útboðið, aðallega árangurstengdar greiðslur til starfsmanna. Sé þessi kostnaður, auk nokkurra annarra óverulegra þátta, dreginn frá, nam tap fjórðungsins 212 milljónum dala, og dróst lítillega saman samanborið við 228 milljón dala tap sama fjórðungs á síðasta ári.

Á sama tíma rétt tæplega tvöfölduðust tekjur félagsins, úr 397 milljónum dala í fyrra í 776 milljónir nú, virkum notendum þjónustunnar fjölgaði um tæpan helming úr 14 milljónum í 20,5, og meðaltekjur á notanda hækkuðu um þriðjung og námu 37,86 dölum.

Félagið býst við tekjum upp á rúmar 800 milljónir dala á öðrum fjórðungi, og 3,3 milljarða dala fyrir árið. Hlutabréfaverð félagsins lækkaði um um það bil 1% eftir að niðurstöðurnar voru kynntar, en það hefur lækkað um fjórðung frá frumútboði félagsins fyrir rúmum mánuði.

Stikkorð: Lyft