JP Morgan Chase viðurkenndi seint í gærkvöldi, eftir lokun kauphallarinnar á Wall Street, að hafa tapað um tveimur milljörðum dala, 246 milljörðum króna, á viðskiptum með fyrirtækjaskuldabréf. Bankinn er stærsti banki Bandaríkjanna ef litið er til markaðsverðmætis og eigna.

Bankinn veðjaði á að efnahagur Bandaríkjanna myndi vænkast meira en hann gerði, og því myndu fyrirtækjaskuldabréf hækka í verði. Þegar það rættist ekki þurfti bankinn að taka á sig gríðarlegt tap.

Jamie Dimon forstjóri bankans sagði viðskiptin hafi verið illa ígrunduð, illa framkvæmd og eftirlitið með þeim hafi verið lélegt.

Robert Peston, viðskiptaritstjóri BBC, segir það vekja athygli að hann segi ekki að viðskiptin hafi verið gerð af starfsmanni í heimildarleysi, eins og gerðist í janúar 2008, þegar Jerome Kerviel olli tæplega fimm milljarða evra tapi hjá franska bankanum Societe Generale.

Vegna þess verður miklu meira tap af rekstri bankans á 2. ársfjórðungi í stað hagnaðar. Gert var ráð fyrir 200 milljóna dala hagnaði, en nú 800 milljón dala tapi.

Hlutabréf bankans lækkuðu um 6,5% í viðskiptum eftir lokun markaða í gær.