Svissneski bankinn UBS tapaði 349 milljónum svissneskra franka, um 43 milljörðum íslenskra króna, á fjárfestingum í hlutabréfum Facebook. Bankinn skilaði 425 milljóna franka hagnaði á öðrum ársfjórðungi sem er litlu meira en hann tapaði á fjárfestingunni í bréfum Facebook. Þetta kemur fram í frétt BBC um málið.

Eftir að hlutabréf Facebook voru sett á markað í maí hafa þau fallið um nærri 40%. Hagnaður UBS dróst saman miðað við annan ársfjórðung síðasta árs þegar hagnaður bankans nam um 730 milljónum franka.

Bankinn hefur dregið saman í starfsemi sinni að undanförnu vegna krísunnar í Evrópu og hefur meðal annars sagt 3.500 manns upp störfum.