Eignarhaldsfélagið Kilroy ehf. tapaði 480 milljónum króna á síðasta ári. Félagið er 74% eigandi að ferðaskrifstofunni Kilroy Travels International í Danmörku í gegnum dótturfélag sitt þar í landi. Áhrif dótturfélagsins eru bókuð 491 milljón króna í rekstrarreikningi eignarhaldsfélagsins.

Kilroy er ferðaþjónusta sem sérhæfir sig í þjónustu fyrir ungt fók og námsmenn. Ferðaskrifstofan starfar í átta löndum, þar á meðal öllum löndunum á Norðurlöndum. Velta ferðaskrifstofunnar á síðasta ári nam 335 milljónum danskra króna, jafngildi 6,3 milljarða íslenskra króna.

Eigendur Eignarhaldsfélagsins Kilroy eru Íslensk fjárfesting ehf. í jafnri eigu Arnars Þórissonar og Þóris Kjartanssonar með 90% hlutafjár, og Sigurðar Hrafns Kiernan með um 10%.

Fréttin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.