Japanska SoftBank samstæðan tapaði yfir 50 milljörðum dala, ígildi um 6.500 milljarða króna, á aðgerðum kínverskra yfirvalda gegn tæknifyrirtækjum á síðasta ársfjórðungi. Wall Street Journal segir frá .

Eigið fé samstæðunnar féll um alls 54 milljarða dala á fjórðungnum, og nam 184 milljörðum í lok hans. Forstjóri félagsins, Masayoshi Son, sagði tapið þó ekki myndu koma í veg fyrir áformuð endurkaup hlutabréfa þess. Hann sagði áhættu fyrirtækisins af kínverskum eignum þess takmarkaða.

Fyrir ríflega ári síðan var fjórðungshlutur SoftBank í kínverska tæknirisanum AliBaba virði um 60% alls eigin fjár samstæðunnar, en í dag hefur hlutfallið helmingast samhliða helmingslækkun markaðsvirði bréfanna.

SoftBank fjárfestir aðallega í tæknifyrirtækjum, og hefur gengið mun betur í Bandaríkjunum en Kína. Hlutur þess í veitingasendingarþjónustunni DoorDash hefur hækkað mikið í verði í kjölfar vel heppnaðs frumútboðs.

Félagið átti einnig stóran hlut í deiliskrifstofufyrirtækinu mislukkaða WeWork, sem féll mikið í verði í kjölfar hneykslismáls tengdum forstjórans, Adam Neumann, en sala SoftBank á hlut sínum í félaginu hefur losað um lausafé til að fjárfesta í nýjum verkefnum og kaupa eigin hlutabréf.