Loftleiðir Cabo Verde, félagið sem heldur utan um 51% eignarhlut í flugfélagi Grænhöfðaeyja, Cabo Verde Airlines, tapaði 946 milljónum króna á síðasta ári að því er fram kemur í ársreikningi félagsins.

Eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá áður hefur félagið fært niður eignarhlut sinn í flugfélaginu fyrir 6,1 milljón Bandaríkjadala, eða andvirði um 842 milljóna íslenskra króna.

Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um fjárfestingu hóps fjárfesta, þar á meðal Björgólfur Jóhannsson fyrrum forstjóri Icelandair, ásamt Loftleiðum, dótturfélags Icelandair, í flugfélagi eyjanna, fyrir 1,3 milljón evra.

Þá samsvaraði fjárfestingin 177 milljónum íslenskra króna, en til viðbótar lofaði félagið viðbótarfjárfestingu upp á 819 milljónir íslenskra króna í flugfélagið. Í ársbyrjun var Erlendur Svavarsson ráðinn forstjóri CVA, en félagið tapaði 21 milljón dala á síðasta ári.

Eyjarnar eru vel staðsettar sem flughöfn milli fjögurra heimsálfa við Atlantshafið og er markmið félagsins að byggja upp tengiflug þar milli Evrópu, Norður-Ameríku, Afríku og Suður- Ameríku líkt og Icelandair gerir milli fyrrnefndu álfanna tveggja.

Tap Loftleiða Cabo Verda var eins og áður segir 946 milljónir króna króna á síðasta ári, en þá gaf félagið ekki upp neinar tekjur, auk þess sem eigið fé félagsins er neikvætt um 927 milljónir króna.

Loftleiðir, dótturfélag Icelandair eiga rétt tæplega 70% í Loftleiðir Cabo Verde, félagið Kjálkanes á rétt rúmlega 20% hlut, og Björgólfur Jóhannson fyrrverandi forstjóri Icelandair og núverandi meðforstjóri Samherja, á 10%.

Hér má lesa frekari fréttir um fjárfestingar Icelandair í öðrum flugfélögum á Atlantshafseyjum: