Sem kunnugt er var greiðslumiðlunarfyrirtækið Valitor á dögunum dæmt til að greiða DataCell og Sunshine Press Productions (SPP), rekstrarfélagi WikiLeaks, 1,2 milljarða króna vegna samningsbrots.

Einn veigamesti þáttur niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu, og þeirra matsgerða sem framkvæmdar hafa verið á tjóni DataCell og SPP, er tímabilið sem miðað er við. Undirmatið – sem komst að því að tjónið hafi numið 3,2 milljörðum, en dómurinn taldi ekki rétt að staðið – og mat dómaranna tveggja sem ákvörðuðu að álitum að bæturnar skyldu nema 1,2 milljörðum, eiga það sameiginlegt að miða við tæplega tveggja ára tímabil, frá því að greiðslugáttinni var lokað og þar til Hæstiréttur fyrirskipaði opnun hennar á ný.

Samningur Valitor við DataCell fól hins vegar í sér tveggja mánaða uppsagnarfrest, sem telja verður líklegt að hefði þýtt að jafnvel þótt staðið hefði verið við samninginn, hefðu greiðslur aðeins borist í tæpan ellefta hluta þess tímabils sem reiknað er með. Valitor benti á þetta fyrir dómi, en dómurinn tók ekki tillit til þeirrar ábendingar á þeim forsendum að þetta atriði hefði ekki komið fram í upphaflegri greinargerð, svokölluð útilokunarregla.

Sé gert ráð fyrir stöðugu flæði fjármagns, en 60 daga tímabili í stað þeirra 671 daga sem gengið var út frá, hefðu bæturnar því numið 107 milljónum króna í stað 1.200.

Viðar vill þó meina að sökum þess að dæmt var að álitum hafi dómararnir haft víðtækar heimildir til að ákvarða forsendur útreikningsins sjálfir. „Þegar dæmt er að álitum þá getur dómarinn tekið inn þá þætti sem hann telur réttasta. Við erum ósammála mjög mörgum þáttum í aðferðafræði héraðsdóms, þar á meðal því að þeir miði við 671 dag en ekki 60.“

Fjöldi annarra leiða til að styrkja
Önnur forsenda, sem Viðar segir afar hæpna, er að reikna með stöðugum greiðslum út tímabilið, að sambærilegri upphæð og þær sem bárust áður en lokað var fyrir þær. Augljóst þyki að ýmsir hafi fundið aðrar leiðir til að koma fjármunum til félagsins, enda sé það raunar meginregla í skaðabótarétti að tjónþoli skuli lágmarka tjón sitt eftir bestu getu. „Það eru hundruð greiðsluleiða þarna úti sem hægt er að nota. Eftir ár byrjaði franskt félag, Carte Bleue, að taka við kortagreiðslum hjá rekstrarfélagi WikiLeaks. Það var ekki tekið tillit til neins af þessum þáttum. Það er grunnregla í svona málum að menn eiga að lágmarka tjón sitt. Við vitum að menn voru til dæmis að taka við Bitcoin á þessum tíma, og er raunar haft eftir forsprakka WikiLeaks að þeir hefðu tekið við fullt af þeim á mjög lágu gengi, sem síðan hækkuðu gríðarlega í verði. Þannig að það eru ýmsar málsástæður í þessu sem okkur finnst héraðsdómur ekki taka nægjanlega tillit til.“

Nánar er rætt við Viðar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .