Landsbankinn var meðal þeirra fjármálastofnana sem töpuðu á viðskiptum við einstaklinga sem bjuggu yfir innherjaupplýsingum um fjárhagsstöðu Icelandair Group. Þetta kemur fram í umfjöllun Fréttablaðsins um málið. Mennirnir eru grunaðir um að hafa nýtt sér innherjaupplýsingar sem þeir fengu frá yfirmanni hjá Icelandair, eins og áður hefur verið greint frá.

Þeir gerðu framvirka samninga með hlutabréf í Icelandair Group fáeinum dögum áður en félagið sendi frá sér afkomutilkynningu til Kauphallarinnar. Í fréttinni segir að viðskiptin hafi farið þannig fram að mennirnir skuldbundu sig til að kaupa eða selja hlutabréf í Icelandair Group á fyrir fram ákveðnu verði á fyrir fram ákveðnum tíma. Þar segir einnig að mótaðilar mannanna hafi verið innlendar fjármálastofnanir, þar á meðal Landsbankinn. Einnig er það ljóst að mótaðilarnir töpuðu háum fjárhæðum á samningunum.

Yfirmaður Icelandair sem er grunaður um innherjasvik var í slagtogi með að minnsta kosti þremur mönnum, en áður hefur verið sagt frá því að einn mannanna hlaut nýlega fangelsisdóm í Hæstarétti fyrir peningaþvætti, fíkniefnabrot og rekstur spilavíti. Héraðssaksóknari fer með rannsókn málsins og hefur meðal annars yfirheyrt einstaklingana og kyrrsett tugi milljóna króna vegna málsins.