Í skýrslu slitastjórnar VBS fjárfestingabanka, sem slitastjórnin lét gera fyrir kröfuhafa, kemur fram að 76% allra útlána VBS hafi verið til félaga í fasteignastarfsemi. Undir þann hatt heyra meðal annars verktakar, fasteignaþróunarverkefni og ýmiskonar önnur mannvirkjagerð. Þetta er sá geiri atvinnulífsins sem hefur farið einna verst út úr hruninu. Um 13% útlána bankans voru til eignarhaldsfélaga og 11% til einstaklinga. Þá voru um 1% útlánanna flokkuð sem „ýmislegt“. Útlánasafn VBS var því vægast sagt einsleitt. Oftar enn ekki var lánað til mjög áhættusamra fasteignaverkefna og veð tekin í verkefninu sjálfu. Því var VBS að bera þorra áhættunnar sem skapaðist vegna þess.

VBS gaf einnig út skuldabréf á þær fasteignir sem áttu að rísa, en risu oft á tíðum aldrei. Þau skuldabréf voru síðan seld til einstaklinga sem voru í eignarstýringu hjá bankanum og þeir því látnir bera útlánaáhættu bankans að hluta. Flest skuldabréfin eru í dag talin verðlaus og því töpuðu eignarstýringarviðskiptavinirnir verulega á þeim. Á meðal verkefna sem VBS fjármagnaði voru stór fasteignaþróunarverkefni á Suðurnesjum, Suðurlandi og á Akureyri.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .