Torg ehf., fyrirtæki í eigu Prentsmiðjunnar Odda hf., hefur keypt öll hlutabréf í útgáfufyrirtækinu Fróða hf. og mun taka við rekstri Fróða hf. frá og með deginum í dag.

Fróði hf. og forveri hans, Frjálst framtak hf., hefur verið umfangsmesti tímaritaútgefandi landsins í á þriðja áratug. Fyrirtækið gefur nú út tvö vikublöð, Vikuna og Séð og heyrt, auk þess má nefna tímaritin bOGb, Gestgjafann, Hús og híbýli, Mannlíf og Nýtt Líf sem koma út mánaðarlega. Heildartölublaðafjöldi á ári er um 170.

Aðaleigandi Fróða hf., Magnús Hreggviðsson, hefur ákveðið að draga sig út úr útgáfurekstri. Í nokkra mánuði stóðu yfir viðræður við stórt erlent útgáfufyrirtæki um kaup á Fróða hf. og voru þeir samningar að nálgast lokastig.

Vegna mikilla samskipta og viðskipta fyrirtækjanna Fróða hf. og Prentsmiðjunnar Odda varð úr að Oddi hf. gengi inn í þau samningsdrög sem fyrir lágu og keypti Fróða hf.

Í tilkynningu frá Fróða kemur fram að ekki eru áformaðar breytingar á útgáfustarfsemi Fróða hf. né heldur miklar breytingar á starfsmannahaldi, en hjá Fróða hf. starfa nú um 80 manns í föstum störfum.

Fyrst um sinn mun Knútur Signarsson sem starfað hefur um langt árabil sem framkvæmdastjóri hjá Prentsmiðjunni Odda sjá um framkvæmdastjórn hjá Fróða hf.