Fjölmiðlafyrirtækið Torg tapaði „upp undir 600 milljónum króna“ á síðasta ári, að því er kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Þar segir að tapið hafi verið fjármagnað með nýju hlutafé. Ekki er búið að skila inn ársreikningi Torgs, sem rekur nokkra fjölmiðla, þar á meðal Fréttablaðið og DV.

Helgi Magnússon, stærsti hluthafi Torgs, heldur því fram að Torg sé ekki til sölu og vísar á bug fréttum um þess efnis sem birst hafa í fjölmiðlum að undanförnu. Samkvæmt heimildum Stundarinnar barst Torgi nýlega tilboð að fjárhæð 100 milljónum króna sem var hafnað. Viljinn hélt því fram í ágúst að bæði Sýn og Símanum hafi verið boðið að taka yfir rekstur Torgs.

„Það er rangt,“ segir Helgi í Fréttablaðinu í morgun. „Hins vegar höfum við fengið fyrirspurnir og óformleg tilboð í fyrirtækið eða hluta þess frá nokkrum aðilum að undanförnu. Þeim hugmyndum hefur öllum verið svarað neitandi og vísað frá með þeim orðum að ekkert sé til sölu hjá okkur.“

Í desember 2020 greindi Fréttablaðið frá því að Helgi aukið hlutafé Torgs fyrir 600 milljónir króna, annars vegar til að greiða upp óhagstæð lán og hins vegar að mæta tapi í faraldrinum.

Helgi seldi á dögunum 6,2% hlut sinn í Bláa lóninu og lét samhliða af störfum sem stjórnarformaður fyrirtækisins. Söluandvirðið nam lítillega undir þeim 3,8 milljörðum króna sem fjárfestirinn Sigurður Arngrímsson fékk fyrir sinn 6,2% hlut í Bláa lóninu, samkvæmt heimildum Vísis.