„Fyrirtækið var búið að safna skuldum, hafði ekki efni á skila inn bókhaldi og fékk síðan á sig áætlun. Nú bíð ég bara eftir skiptastjóra,“ segir Svavar Kjarrval Lúthersson, sem rak skráaskiptasíðuna Torrent .is. Istorrent, fyrirtækið sem hélt utan um rekstur síðunnar, var úrskurðað gjaldþrota í héraðsdómi Reykjaness 10. maí síðastliðinn. Svavar segir í samtali við vb.is málarekstur Samtaka tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF) í um þrjú ár hafi riðið fyrirtækinu að fullu og það farið í þrot.

STEF fékk lögbann á skráaskiptisíðuna árið 2007 og var mál STEFS gegn Istorrent rekið um nokkurt skeið fyrir dómstólum. Það fór tvisvar fyrir héraðsdóm og jafnoft í Hæstarétt og brá Svavar á það ráð m.a. að ýta úr vör fjársöfnun fyrir málarekstrinum. Málinu lauk í febrúar árið 2010 þegar Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms um greiðslu skaðabóta. Svavar telur að kostnaðurinn hafi samantekinn numið í kringum fimm milljónum króna. Við hann bættist skattaáætlun upp á tvær til þrjá milljónir króna og reið það fyrirtækinu að fullu.

Nær allt fór í lögfræðing

Istorrent skilaði síðast inn ársreikningi fyrir uppgjörsárið 2008. Þar kemur fram að tekjur voru engar en styrkir námu 286 þúsund krónum. Rekstrarkostnaður nam tæpum 3,6 milljónum króna en það var að nær öllu leyti lögfræðikostnaður. Félagið tapaði 3,3 milljónum króna sem bættist við 3,9 milljóna króna tap árið 2007. Skuldir námu í lok ársins 7,7 milljónum króna og var eigið fé Istorrent neikvætt um 6,7 milljónir.