Eigendur skráardeilisíðunnar TorrentSpy hafa verið dæmdir til að greiða 110 milljónir Bandaríkjadala í sekt til samtaka myndréttarhafa í Bandaríkjunum (MPAA). Móðurfélag TorrentSpy, Valence Media, og eigendur þess, hafa lýst sig gjaldþrota.

Dómurinn fellur aðeins nokkrum vikum eftir að vefsíðan lokaði, en hún hýsti ólöglega dreifingu höfundarréttarvarins efnis.

„Þessi háa upphæð felur í sér skýr skilaboð um ólögmæti þessara vefsíða“ sagði formaður MPAA, Dan Glickman. „Að TorrentSpy hafi verið lögð niður er sigur fyrir kvikmyndaframleiðendur.“ TorrentSpy studdist við BitTorrent tækni, líkt og Istorrent á Íslandi.

Sektin í dómnum er ein sú stærsta sem lögð hefur verið á vegna brota á höfundarétti.