Vegna samsetningu íslensku gengisvísitölunnar hefur styrking Bandaríkjadals gagnvart evru í sumar lækkað gengisvísitöluna (krónan hefur styrkst gagnvart erlendum myntum) þótt virði íslensku krónunnar heilt yfir hafi lítið breyst á tímabilinu. Þetta kom fram Í fréttabréfi Júpiters, sjóðastýringarfyrirtækis, í gær. „Það væri óskandi að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands líti til þessa við vaxtaákvörðun 21. september næstkomandi," segir í fréttabréfinu.

Þar kemur fram að hækkandi hrávöruverð á heimsmarkaði, hækkandi fasteignaverð, veiking íslensku krónunnar og nýgerðir kjarasamningar voru ástæður þess að Seðlabankinn fann sig knúinn til að hækka vexti á síðasta fundi.

„Nú skal ósagt látið hvað gerist á næsta fundi, en hvað sem gerist þá er mjög sennilegt að þetta ferli vaxtahækkana verði skammvinnt. Fátt í innlendum þjóðarbúskap bendir til þenslu eða ofhitnunar og útilokað er að Seðlabanka Íslands takist að stöðva verðhækkanir á hrávörum á alþjóðlegum mörkuðum," segir í fréttabréfinu.

Svipuð skoðun kemur fram í fréttabréfinu og Ársæll Valfells viðraði á fundi VÍB í Hörpu í gær.

„Einnig styður fátt verðhækkanir á fasteignum þegar kaupmáttur er að rýrna, lánskjör eru óhagstæð og lánastofnanir sitja á miklu magni fullnustueigna. Íslenska krónan er auk þess í spennitreyju íþyngjandi gjaldeyrishafta þar sem Seðlabankinn hefur nær fulla stjórn á flæðinu. Það er torséð að vextir þurfi að hækka undir slíkum kringumstæðum," segir í fréttabréfi Júpiters.